Skúlptúrar

Á flakki um YouTube fyrir nokkrum árum datt ég inn á Tested og sá þar myndband þar sem Frank Ippolito var að sýna handtökin við að taka mót og gera afsteypu af geislasverði. Þetta vakti áhuga minn og kveikti hugmynd að því að prufa að móta úr leir eitthvað af skissum mínum úr Ári hinna dauðu.

Eftir nokkra rannsóknarvinnu komst ég að því að til eru mörg efni sem nýtist við gerð skúlptúra, til dæmis:

  • Keramikleir
    Þarf sérstakan ofn til að brenna
  • Vaxleir
    Harðnar sjálfur en verður þó aldrei alveg harður
  • Bökunarleir
    Hitaður í bakaraofni en er samt viðkvæmur
  • Epoxyleir
    Þarf ekki að brenna 

Ég keypti mér Sculpey bökunarleir og byrjaði að móta íshauskúpu. Ég komst fljótt að því að til var betri leir til að vinna með því Sculpey leirinn átti það til að verða stökkur og harður og gat því brotnað auðveldlega á viðkvæmum svæðum. Ég hafði rekist á verk eftir Jason Freeny og komast að því að hann mótaði öll sín verk úr Epoxy leir.

Epoxyleir er tveggja þátta leir sem þýðir að hann kemur í tveimur aðskildum hlutum. Í sitthvoru lagi helst hann mjúkur en þegar báðum hlutunum er blandað saman (í hlutföllunum 1:1) virkist efnasamband sem veldur því að leirinn harðnar.

Þetta ferli, þangað til leirinn er orðinn alveg harður, tekur um sólahring. Á þessum tíma gengur leirinn í gegnum nokkur vinnslustig. Fyrst er hann mjög mjúkur og auðvelt að móta hann til og frá í grófum dráttum. Næst stífnar hann upp þannig auðveldara verður að vinna smærri drætti og að lokum verður hann nokkuð harður en samt hægt að setja áferð og smáatriði. Að lokum er leirinn orðinn mjög harður. Það er þó hægt að vinna hann áfram en þá með sandpappír, raspi, fræsara og öðrum slíkum tækjum og tólum. 

Það er vel hægt að bæta nýjum leir við harðnaðan leir og binst hann mjög vel við yfirborðið. Auðvelt er að lita leirinn með spreyi eða málningu. 

Epoxy leir er mikið notaður í skúlptúra og frumgerðir og er mjög sterkur og endingargóður.

Hér er listamaðurinn Jim McKenzie að vinna með epoxy leir í skemmtilegum skúlptúr.